Sjálfstætt Fólk - Halldór Laxness

$39.90

Only available in Icelandic.

Fáar bækur hafa borið hróður íslenskra bókmennta víðar en Sjálfstætt fólk, sem er ekki einungis útbreiddasta skáldsaga Halldórs Laxness heldur er hún einnig jafnan talin hans höfuðverk.

Saga Bjarts í Sumarhúsum, hins þrjóska einyrkja, og baráttu hans við Rauðsmýringaveldið, sína eigin fjölskyldu og sjálfar höfuðskepnurnar, fann strax sterkan samhljóm í íslenskri þjóðarsál og hefur haldið sínum sessi sem uppáhaldsskáldsaga flestra Íslendinga. Þótt Sjálfstætt fólk sé að upplagi þjóðfélagsleg saga þá rís hún ekki síst í hæðir í stórkostlegum persónulýsingum sem eru með þeim minnisstæðustu úr smiðju Halldórs; hin viðkvæma Rósa, Hallbera gamla, Rauðsmýrarmaddaman, Ingólfur Arnarson Jónsson, drengurinn Nonni, Ásta Sóllilja – en ekki síst hinn stórbrotni Bjartur, sjálfstæðasti maður landsins „sem sáir í akur óvinar síns allt sitt líf, dag og nótt“ og er löngu orðinn táknmynd í daglegu lífi Íslendinga.

Í Sjálfstæðu fólki rís stílsnilld Halldórs Laxness einna hæst; þar vegast á viðkvæmni og harka í fullkomnu jafnvægi, djúpur harmur og kraumandi írónía, og höfundur leikur á tilfinningaskala persóna sinna af fágætri list sem einungis snjöllustu höfundar hafa á valdi sínu.

Höfundur: Halldór Laxness

You may also like

Recently viewed